Vegna áforma um aukna orkunotkun á Sauðárkróki þarf að styrkja tengingu svæðisins við flutningskerfið og auka orkuafhendingu og afhendingaröryggi með því að leggja 66 kV jarðstreng, Sauðarkrókslínu 2, frá Varmahlíð að nýju tengivirki á Sauðárkróki.
Eina tenging Sauðárkróks við flutningskerfið er 66 kV loftlína frá Varmahlíð sem orðin er rúmlega 40 ára gömul og mun tilkoma jarðstrengsins auka orkuöryggi og meira en tvöfalda flutningsgetu að svæðinu.
Áformað er að jarðstrengurinn, sem verður um 23 km langur, liggi að mestu samsíða núverandi loftlínu, nema á kafla frá Sæmundará að Gili/Sauðárkróki, þar sem strengurinn mun liggja samsíða Sauðárkróksbraut. Tengja á núverandi loftlínu, Sauðárkrókslínu 1, með jarðstreng við nýtt yfirbyggt 66 kV tengivirki á Sauðárkróki, sem miðað er við að rísi austast í bænum. Núverandi tengivirki, sem stendur nærri íbúabyggð, legst þá af. í Varmahlíð verður einnig reist nýtt yfirbyggt 66 kV virki inn á lóð núverandi tengivirkis.
Undirbúningur verkefnisins hófst sumarið 2006 og haustið 2008 hófst vinna við breytingar á aðalskipulagi sem voru staðfestar árið 2012. Árið 2009 var verkefnið sett í bið vegna breyttra aðstæðna en það er nú komið á dagskrá að nýju. Spennusetning strengsins er áætluð haustið 2019.